Já, kæru lesendur. Það er ekki úr vegi að segja ykkur aðeins frá því sem er í deiglunni.
Í liðinu okkar mætast persónur úr ólíkum áttum og því er um að gera að nýta þennan þverfaglega jarðveg sem skapast, og aldeilis gráupplagt að sá í þennan sama jarðveg fræjum tækni og nýsköpunar.
Íslenska þjóðin er sérstök skepna og það er íslendingabókin líka. Það skal engan undra að fréttirnar af ættfræðigagnagrunni sem kortleggur allan landann berist víða og lendi í höndum misvitra blaðamanna sem síðan gera sér misgáfulegan mat úr því. En einhver sagði að öll umfjöllun væri góð umfjöllun og á öld upplýsingar er lítið mál að eyða gróusögu með einum smelli á netinu. Sjáiði bara allt fræga fólkið, enginn slúðrar um þau lengur.
En fátt er svo með öllu illt. Það sem slíkar sögur spinna stundum af sér eru hugmyndir. Stundum geta þær orðið kveikjan að einhverju sniðugu. Sumir vilja meina að Íslendingabók hafi verið hugsuð sem einhverskonar hjálpartæki skemmtanalífsins á Íslandi, í ljósi þess að erfitt þykir að fá sér einn gráan án þess að stíga á tær ættmenna og enn verra að fara með einu slíku heim að púsla. Þetta finnst fólkinu í útlöndum alveg ægilega fyndið. Eðlilega.
Margir gripu í þetta þegar fréttin af snjallsíma-appi fyrir Íslendingabókina kom. Nú skyldi sko aldeilis skrallað með bjórinn í einni og appið í hinni.
Ellefan horfði hinsvegar í aðra átt. Sagnfræðingurinn vildi gera fólkið meðvitað um þjóðararfinn. Einhvernveginn þurfti að innlima þjóðsagnahefðina og alvöru frægt fólk á borð við Magnús Stephensen. Verkfræðingurinn vildi sýna fram á að Íslendingabók væri ekki bara bók og sýna fram á allskonar hagkvæmni og forritarinn, já hann var bara svona eins og trommarinn.
Því nú er tíminn til að rífa siðferði þjóðarinnar upp úr svaðinu og í stað þess að klæmast yfir innræktun er kannski kominn tími til að reisa stafræna styttu af Skúla Fógeta.